Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, segir að kostnaður ríkisins vegna aukapersónuafsláttar sé þrefalt minni en Samtök atvinnulífsins halda fram. Hann segir að næsta vika ráði úrslitum um hvort semjist í bráð. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Alþýðusambandið fer fram á hærri atvinnuleysisbætur og skerðingarmörk vegna barna-, vaxta- og húsaleigubóta. Einnig að þeir sem eru með 150.000 krónur á mánuði eða minna í tekjur fái auka persónuafslátt, 20.000 krónur á mánuði.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í hádegisfréttum Útvarpsins að krafan um auka persónuafslátt myndi kosta ríkissjóð fjörutíu milljarða króna. Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins, segir þetta rangan útreikning hjá Vilhjálmi. Tillagan kosti um 14 milljarða króna en ekki 40 eins og Vilhjálmur segi.