Margrét og Svandís ósáttar við flutning húsanna

Laugavegur 4-6
Laugavegur 4-6 mbl.is/Ásdís

„Ég er ekki sátt við þessa niðurstöðu, enda er þetta neyðarúrræði,“ segir Margét Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi F-lista, um þá ákvörðun Reykjavíkurbogar að láta flytja húsin við Laugaveg 4-6 á nýja lóð. „Mér finnst þessi hús ákaflega lítils virði ef þau eru ekki hluti af götumyndinni. Skipulagsslysið er að setja þarna hótelkassa í staðinn, enda get ég ekki séð að sá rekstur henti þessari staðsetningu,“ segir Margrét og tekur fram að full ástæða virðist vera til þess að koma á fót rannsóknarnefnd skipulagsslysa í borginni.

„Ég vil vernda götumyndina, því þessi hús hafa langmesta þýðingu í því samhengi sem þau eru núna. Næstbesti kosturinn er að bjarga þeim og flytja þau á annan stað. Versti kosturinn er að farga þeim,“ segir Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG og formaður skipulagsráðs.

Að sögn Svandísar felast verðmæti húsanna við Laugaveg 4-6 í því að þau eru perlur í því perlubandi sem liggi frá Lækjartorgi upp á Veghúsastíg og sé með örfáum undantekningum aðeins varðað gömlum húsum.

„Svona heila götumynd höfum við ekki víða í Reykjavík. Með því að taka Laugaveg 4-6 og byggja hótel í staðinn þá erum við rjúfa skarð í þetta perluband,“ segir Svandís og bendir á að lánist borgaryfirvöldum að halda í götumynd af þessu tagi þá séu þau fyrst og fremst að vinna framtíðinni og sögunni gagn en ekki sjálfum sér. Aðspurð segist Svandís hafa beitt sér í þágu húsverndar í meirihlutanum og tekur fram að hún muni gera það áfram.

Í samtali við Morgunblaðið gagnrýna Hjörleifur Stefánsson arkitekt og Snorri Freyr Hilmarsson, formaður Torfusamtakanna, harðlega að fjarlægja eigi húsin við Laugaveg 4-6 og reisa annars staðar, þar sem verðmæti húsanna felist í staðsetningu þeirra. Bendir Snorri á að deilan hafi aldrei snúist um að húsin yrðu flutt, heldur um að einni elstu göturöð bæjarins yrði ekki skipt í tvennt með nýju og stóru hóteli.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert