Stór hluti starfsmanna Neytendastofu hefur sagt upp störfum á síðustu misserum vegna óánægju með stefnu og stjórnun stofnunarinnar, sem varð til á miðju ári 2005. Erindi hafa verið send inn til viðskiptaráðuneytisins þar sem áhyggjur af ástandi stofnunarinnar og stjórnun hennar eru tíundaðar en engin viðbrögð fengist frá ráðuneytinu að sögn starfsmanna.
Samkvæmt heimildum 24 stunda er það fyrst og fremst óánægja með þær breytingar sem hafa orðið á starfsemi þeirra deilda sem runnu inn í Neytendastofu sem orsaka uppsagnirnar. Starfsmenn segja stofnunina ekki virka eins og hún ætti að gera og hafi aldrei gert frá stofnun.
Fjölmargir þeirra sem hafa hætt höfðu áralanga reynslu á sínu sviði og bjuggu yfir mikilli þekkingu. Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, staðfestir að fólk hafi hætt störfum. „Ég er ekki með nákvæmlega töluna um hver hættir og af hverju, en þetta er yfirleitt fólk sem er eftirsótt og því boðist skemmtileg störf."
Hann segir samruna stofnana hjá ríkinu oft vera erfitt verkefni. „Það eru alltaf einhver vinnubrögð sem látin eru fyrir róða og ný koma inn. Ég stóð frammi fyrir því verkefni árið 2005 að við vorum öll komin á sama bát. Það var alveg ljóst að margir í áhöfninni höfðu aldrei óskað sér að lenda á þessu skipi og það kom mjög skýrt fram."
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir óánægju starfsmanna ekki hafa ratað inn á borð til sín á meðan hann hafi setið í ráðuneytinu. „Við stefnum að því að stórefla Neytendastofu. Hún þarf að vera miklu öflugri og það er það sem við vinnum að."