Tveir brunar í nótt

Tilkynnt var um tvo bruna á Akureyri í nótt og í báðum tilfellum tókst að slökkva elda áður en mikið tjón hlaust af. Um klukkan 01:30 í nótt var tilkynnt um sinuelda við Pétursborg, sumarhúsabyggðina rétt norðan við bæinn. Að sögn lögreglu kviknaði í af völdum flugelda og breiddist eldurinn út um all stórt svæði.

Slökkviliðið var kallað til og náði að slökkva eldana áður en mikið tjón hlaust af en eldurinn var farinn að nálgast sumarhúsið þar sem fólk var og hafði skotið upp flugeldum.

Skömmu síðar eða um klukkan 04:00 var tilkynnt um eld í skúr sem er utan um eina borholu Norðurorku á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit. Viðvörunarkerfi gerði starfsmanni Norðurorku á bakvakt við vart um að eitthvað væri ekki í lagi.

Hann fór á vettvang, sá hvað um var að vera, til kynnti slökkviliði um stöðuna og var að mestu búinn að slökkva eldinn þegar slökkviliðið kom á vettvang.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert