Útlendingar með kvef fara á slysadeild

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi.

Komum Austur-Evrópubúa á slysadeild Landspítalans hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum tveimur árum. Árið 2005 komu 4 til 8 austur-evrópskir karlmenn í hverjum mánuði á slysadeildina.

Undanfarna tvo til þrjá mánuði hefur fjöldi þeirra austur-evrópsku karlmanna, einkum frá Póllandi og Eystrasaltslöndunum, sem komið hefur á slysadeildina verið 120 til 140 í hverjum mánuði vegna ýmiss konar slysa en einnig vegna kvefs og annarra kvilla sem ættu heima á heilsugæslunni, að því er Ófeigur Þorgeirsson yfirlæknir greinir frá.

Hann getur þess jafnframt að fjölskyldur austur-evrópsku karlanna, jafnvel foreldrar þeirra sem starfa hér, séu einnig farnar að leita til slysadeildarinnar vegna ýmissa sjúkdóma.

„Það er skortur á framboði á læknisþjónustu utan spítalans. Fólk kemur á staðinn þar sem þjónustan er hvað dýrust miðað við þjónustu heilsugæslustöðvanna. Séu sjúklingar sjúkratryggðir er kostnaður þeirra sambærilegur við það sem greitt er á einkareknum stofum. Séu þeir ekki sjúkratryggðir er lágmarkskostnaðurinn vegna komu á slysadeildina 20 þúsund krónur. Auðvitað kemur fyrir að fólk getur ekki borgað," segir Ófeigur.

Þann 17. desember síðastliðinn námu skuldir ósjúkratryggðra útlendinga við Landspítalann samtals 110,3 milljónum króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert