Mikil óánægja ríkir meðal íbúa í nágrenni Baldursgötu í Reykjavík vegna tillögu um nýtt deiliskipulag fyrir svæðið. Tillagan liggur nú frammi til kynningar á Skipulags- og byggingasviði til 11. janúar. Samkvæmt henni mun byggingamagn aukast töluvert og gert er ráð fyrir hærri byggingum en nú eru á lóðunum.
„Ekkert okkar sem eigum hagsmuna að gæta fékk sendar upplýsingar um tillöguna,“ segir Helga Lára Þorsteinsdóttir, einn íbúa við Freyjugötu. Frestur til að skila inn athugasemdum hafi jafnframt verið óvenjustuttur, eða aðeins 14 dagar.
Íbúarnir héldu fund sl. fimmtudagskvöld með Torfusamtökunum, þar sem farið var yfir málin. Þar var samin ályktun sem send verður skipulagsyfirvöldum.
Helga segir staðfestingu hafa fengist á því hjá Skipulagsráði að aðalhvatinn að skipulagsferlinu hafi verði hlutafélag í Kópavogi sem eigi eignir á Baldursgötu 32 og 34. Þeim eignum hafi verið illa sinnt og útigangsfólk m.a. hafst við á Baldursgötu 32. Hún segir að íbúar eigi erfitt með að sætta sig við að eigendum Baldursgötu 32 og 34, sem hafi látið húsin við götuna drabbast niður, verði hampað á kostnað hagsmuna íbúanna. Byggðin sé í mjög grónu hverfi og íbúar fari fram á það við borgaryfirvöld að faglega verði staðið að skipulagsmálum.