Skutu flugeldum út úr bíl á ferð

Það var í mörg horn að líta hjá lögreglunni í …
Það var í mörg horn að líta hjá lögreglunni í nótt. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Tveir piltar voru handteknir í Reykjavík í nótt við þá iðju að skjóta skoteldum úr bifreið á leið sinni niður Laugaveginn. Þeim var sleppt að loknum yfirheyrslum en hald var lagt á skoteldana.

Þrjár líkamsárásir voru gerðar í höfuðborginni í nótt, tvær minniháttar og ein þannig að sparkað var i mann sem missti fótanna og skall með hnakkann á gangstéttarbrún. Missti maðurinn meðvitund og var fluttur á slysadeild með sjúkrabíl, árásarmaður hljóp í burtu af vettvangi og hefur að sögn lögreglunnar ekki fundist.

Um kl. 20 í gærkvöld tendraði 28 ára gamall maður kveikiþráð í flugeldaköku en ekki vildi betur til en svo að kakan sprakk samstundis, hlaut hann áverka í andliti og hugsanlega heilahristing og var fluttur á slysadeild með sjúkrabíl.

Í morgunsárið var par af erlendu bergi brotið handtekið á hóteli borginni grunað um að hafa stolið myndavél og peningum af ferðamönnum er biðu í anddyrinu efir flugrútunni. Í fórum þeirra handteknu fundust umræddir munir.  Þau gista nú fangageymslur og bíða yfirheyrslu.

Þrír voru teknir fyrir of hraðan akstur í nótt, sá hraðasti á 118 km hraða á 80 km kafla við Höfðabakka.

Einn ökumaður missti stjórn á bíl sínum í hálkunni og endaði á ljósastaur við Einarsnes í Skerjafirði. Var hann fluttur á slysadeild. Annar ökumaður endaði inn í húsagarði við Furugrund í kópavogi. Er sá ökumaður grunaður um ölvun við akstur en engin meiðsl urðu á fólki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert