Lögreglan á Hellu hóf um miðnætti í gær eftirför á eftir bíl sem hafði ekki sinnt merkjum lögreglumanna við hefðbundið eftirlit. Ökumaðurinn reyndist einungis 16 ára og því réttindalaus, í bílnum með honum voru einnig fjórir 15 ára unglinga. Bíllinn var gamall og hafði verið afskráður.
Að sögn varðstjóra ók ökumaður á 100 km hraða í gegnum Helluþorpið og út á Gunnarsholtsveg og var mikil hálka á veginum og aðstæður slæmar, að auki var enginn í bílnum spenntur í bílbelti.
Við leit í bílnum fannst bakpoki fullur af heimagerðum sprengjum. Við yfirheyrslu kom í ljós að unglingarnir höfðu tekið í sundur skotkökur til að útbúa sprengjurnar.
Að sögn lögreglunnar hafði unglingurinn sem ók bílnum fullt leyfi foreldra sinna og gerði það með vitund þeirra.
Hvað heimagerðu sprengjurnar varðar sagði varðstjóri í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að stríðsástand hefði ríkt í bænum undanfarin kvöld og mikið hefði verið sprengt.