Borgarstjóri vildi ekki við það kannast að niðurrif húsanna á Laugavegi 4-6 væri hafið þótt þar væru að störfum menn með kúbein og hamra. Þarna væru á ferðinni starfsmenn Minjaverndar, sem hefðu mesta reynslu í viðgerð og flutningi gamalla húsa.
Borgaryfirvöld hafa samið um tveggja vikna frest til að reyna að koma í veg fyrir að húsin verði rifin, og er stefnt að því að þau verði flutt. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að „eitthvað mikið þurfi að gerast“ til að húsin verði áfram þar sem þau eru, en haft er eftir Ólafi F. Magnússyni, forseta borgarstjórnar, í Morgunblaðinu í dag að hann sé því andvígur að húsin verði flutt, og segist beita sér af fullum þunga innan borgarstjórnarmeirihlutans fyrir því að húsunum verði bjargað.
Dagur sagði að málið væri „fyrir þónokkru síðan“ komið af borði borgarstjórnar, en húsafriðunarnefnd muni fjalla um það á morgun.