Ók ölvaður um miðborgina

Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn í miðborginni aðfaranótt laugardags og segir lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, að maðurinn hafi stefnt vegfarendum í Pósthússtræti og Tryggvagötu í hættu með ógætilegum akstri.

Maðurinn var ölvaður og hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Með honum í för voru tveir kunningjar hans á svipuðum aldri og voru þeir líka færðir á lögreglustöð en annar þeirra lét mjög ófriðlega.

Sömu nótt var hálfþrítugur karl handtekinn í Hafnarfirði en sá ók bíl sínum á tvo kyrrstæða bíla. Annar þeirra kastaðist áfram á þriðja bílinn en tjónvaldurinn fór af vettvangi og skildi bíl sinn eftir. Ökufanturinn náðist fljótlega og reyndi í fyrstu að koma sök á annan mann en játaði svo brot sitt.

Akstur þrítugrar konu var einnig stöðvaður aðfaranótt laugardags en til hennar náðist á Breiðholtsbraut. Hún var líka ölvuð og hafði þar að auki þegar verið svipt ökuleyfi. Þá var karl á þrítugsaldri handtekinn í

Kópavogi í fyrrinótt en sá var sömuleiðis drukkinn undir stýri. Maðurinn lenti í umferðaróhappi og fór af vettvangi en komst   ekki langt.

Þá voru fimm ökumenn, allt karlar, teknir fyrir aka undir áhrifum fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Sá yngsti þeirra, sem er tæplega hálfþrítugur, var stöðvaður í Háaleitishverfi en í bíl hans fundust ætluð fíkniefni. Í framhaldinu var leitað á heimili mannsins en þar fundust bæði e-töflur og talsvert af reiðufé.

Annar maður, litlu eldri, var stöðvaður við akstur í Hlíðunum og reyndist sá einnig undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn reyndist jafnframt þegar hafa verið sviptur ökuleyfi. Hann tók fljótlega upp fyrri iðju eftir að hafa verið sleppt úr fangageymslu og settist aftur undir stýri. Hann var því handtekinn öðru sinni og færður í fangageymslu á nýjan leik.

Þriðji maðurinn, sem er rúmlega þrítugur, var stöðvaður á Vesturlandsvegi en hann var sömuleiðis í annarlegu ástandi og líkt og sá í Hlíðunum hafði þessi þegar verið sviptur ökuleyfi.

Fjórði maðurinn, sem er fertugur, var handtekinn í Kópavogi en í bíl hans fundust ætluð fíkniefni sem og töluvert af verkfærum en lögreglu þykir líklegt að þau séu illa fengin.

Loks var maður á fimmtugsaldri handsamaður á Miklubraut en aksturslag hans þótti í meira lagi grunsamlegt. Þegar að var gáð reyndist ökumaðurinn í annarlegu ástandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert