Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur verið kallað út vegna elds í geymslu á jarðhæð í fjölbýlishúsi við Jórufell í Breiðholti. Reyk lagði um stigaganga hússins og var ein kona, sem er haldin öndunarfærasjúkdómi, flutt á slysadeild vegna óþæginda af völdum reyksins.
Að sögn Jóns Viðar Matthíassonar, slökkviliðsstjóra, var talsvert mikill reykur í húsinu og er unnið við að reykræsta. Fólk í húsinu var ekki talið í hættu.
Á sama tíma og slökkviliðið var að fást við eldinn í geymslunni barst útkall vegna elds í kjallaraíbúð við Álfaskeið í Hafnarfirði. Einn bíll var sendur á staðinn og tókst fljótlega að slökkva eldinn.