Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, segir á heimasíðu sinni, að gjafir til neytenda og annarra viðskiptamanna séu að jafnaði lögmætar og ástæður fyrirtækja fyrir slíkum gjöfum séu eðlilegar ef gjafirnar eru hóflegar.
Sömuleiðis sé ekki rétt að amast við styrkveitingum og samfélagsábyrgð fyrirtækja á virkum samkeppnismarkaði.
Gísli segir að á hinn bóginn sé óeðlilegt, og hugsanlega ólögmætt, að fyrirtæki gefi stjórnmála- og embættismönnum gjafir án þess að viðskiptasamband sé að baki. Ástæðan er sú fornkveðna: æ sér gjöf til gjalda. Slík aðstaða standist hvorki gagnvart neytendum né öðrum almannahagsmunum.