Margrét Frímannsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, hefur verið sett forstöðumaður fangelsisins Litla-Hrauns tímabundið frá 1. febrúar nk. vegna leyfis Kristjáns Stefánssonar, skipaðs forstöðumanns. Margrét er fyrst kvenna til að gegna starfi forstöðumanns við fangelsi á Íslandi.
Fram kemur í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu, að Margrét var formaður nefndar sem vann að tillögum um framtíðarrekstur fangelsisins og lauk nefndin störfum í nóvember síðastliðnum. Hún hefur gegnt ráðgjafarstörfum við fangelsið að undanförnu til að hrinda í framkvæmd niðurstöðum nefndarinnar.