Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að alloft séu menn of fljótir á sér að tilkynna bílana sína stolna. Þrjú slík tilfelli hafa komið upp síðast liðinn mánuðinn. Tæplega þrítugur karl hringdi í lögreglu og sagði að bílnum hans hefði verið stolið í Ármúla. Hafin var eftirgrennslan en ekki löngu kom í ljós að maðurinn hafði gleymt hvar hann lagði bílnum. Annar karl, nokkru yngri, kom á lögreglustöð og hafði svipaða sögu að segja.
Í því tilfelli var líka um misskilning að ræða því maðurinn hafði lánað vinkonu sinni bílinn og sem skýrði hvarfið á ökutækinu.
Fyrir áramót var tilkynnt um þjófnað á bílaleigubíl. Umráðamaður hans var útlendingur sem hér dvaldi í skamman tíma. Honum var auðvitað komið strax til hjálpar og fannst bíllinn mjög fljótlega. Engin sjáanleg ummerki voru um nytjastuld en skýringin reyndist síðar vera sú að maðurinn hafði steingleymt því var hann lagði bílnum.
Nýlega var einnig tilkynnt um innbrot og fylgdi sögunni að þjófarnir hefðu haft peningatösku á brott með sér. Lögreglan kannaði málið en ekkert benti til þess að brotist hefði verið inn. Í framhaldinu var tilkynnanda bent á að leita af sér allan grun og fannst þá taskan á sínum stað.