Öryrkjabandalagið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem því er fagnað, að ákveðið hefur verið að fella niður komugjöld barna á heilsugæslustöðvum og á sjúkrahúsum. En jafnframt mótmælir bandalagið hækkun á gjaldtöku fyrir læknisþjónustu og heilsugæslu örykja um allt að 70%.
„ÖBÍ hefur markað þá stefnu að fella beri niður gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu í þeim tilgangi að tryggja öllum greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Ákvörðun ráðherra um hækkun gjalda á aðra en börn gengur gegn þessu yfirlýsta markmiði og sem finna má í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
ÖBÍ skorar á ráðherra að endurskoða ákvörðunina og lækka eða fella niður gjaldtöku á alla sem þurfa á þjónustu heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa að halda," segir í yfirlýsingunni.