Ráðherra friði Laugavegshús

Laugavegur 4-6.
Laugavegur 4-6. mbl.is/Ásdís

Húsafriðunarnefnd var á fundi í dag sammála um, að beina þeim tilmælum til menntamálaráðherra að húsin við Laugaveg 4-6 verði friðuð.

Nikulás Úlfar Másson, formaður nefndarinnar, segir að það hafi vegið einna þyngst á metunum, að það byggingarmagn, sem er í núverandi tillögum um reitinn, rýri mjög varðveislugildi hússins við Laugaveg 2 en það hús var friðað árið 2002. 

Nikulás  sagði að nefndin hafi áður fjallað um þessi hús en ekki hafi verið hægt að taka afstöðu til málsins fyrr en vitað var hvað hvað koma ætti í staðinn.

Samþykkt nefndarinnar er eftirfarandi:

    Húsafriðunarnefnd hefur á fundi sínum í dag, 8. Janúar 2008, fjallað um framtíð húsanna að Laugavegi 4 og 6 í Reykjavík. Húsafriðunanefnd samþykkir með tilvísun í 4.gr. laga um húsafriðun nr. 104/2001 að leggja til við menntamálaráðherra að húsin verði friðuð.

    Húsin eru hluti af elstu, heillegu húsaröð við Laugaveg, helstu verslunargötu Reykjavíkur. Þau eru hluti af mikilvægu samhengi friðaðra húsa við neðanverðan Laugaveg og annarra húsa sem Húsafriðunarnefnd hefur lagt til að verði friðuð við götuna.

    Húsið að Laugavegi 4 var byggt árið 1890 sem atvinnuhúsnæði og þar var lengi prentsmiðja. Húsið hefur frá upphafi myndað samstæðu með húsinu að Laugavegi 2 sem er friðað. Í sögulegu samhengi má því líta á þau sem eina órofa heild.

    Húsið að Laugavegi 6 var reist árið 1871 sem íbúðarhús og er annað elsta hús við Laugaveg. Það er fulltrúi elstu gerðar einlyftra timburhúsa við götuna. Þrátt fyrir breytingar í tímans rás heldur húsið upphaflegu formi sínu.

    Samþykkt Húsafriðunarnefndar er gerð með hliðsjón af Feneyjaskránni, alþjóðlegri samþykkt um verndun menningararfs, þar sem segir m.a. að í húsvernd sé fólgin varðveisla viðeigandi umgerðar og varað við niðurrifi og breytingum á stærðarhlutföllum í næsta nágrenni friðaðra mannvirkja.

    Húsafriðunarnefnd væntir góðs samstarfs við borgaryfirvöld um varðveislu og framtíð húsanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka