Rauði krossinn sendir 3 milljónir til Kenýa

Tugir þúsunda hafa hrakist frá heimilum sínum í Kenýa
Tugir þúsunda hafa hrakist frá heimilum sínum í Kenýa AP

Rauði kross Íslands hefur sent 3 milljónir til hjálparstarfs í Kenýa vegna
átakanna sem brutust út milli þjóðarbrota í landinu í kjölfar
forsetakosinganna þar 30. desember.  Fjármagnið rennur í neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins.  Einn sendifulltrúi Rauða kross Íslands, Ómar Valdimarsson, er við störf í landinu.

Hundruð  manna eru talin hafa látið lífið eða særst í ofbeldisaðgerðum og tugir þúsunda hafa neyðst til að flýja heimili sín. Alþjóða Rauði krossinn sendi því út sérstaka neyðarbeiðni vegna stóraukins stuðnings við stofnunina í Kenýa. 

Jafnframt hefur verið sendur fjöldi hjálparstarfsmanna til að aðstoða fórnarlömb átakanna og vinna að dreifingu matvæla og annarra hjálpargagna ásamt sjálfboðaliðum Rauða krossins.

Fyrstu aðgerðir Alþjóða Rauða krossins felast í því að útvega fórnarlömbum átakanna matvæli, búsáhöld, vatn og hreinlætisaðstöðu. Alls er stefnt að því að sjá um 100.000 manns fyrir aðstoð um nokkurra vikna skeið. Rauði krossinn í Kenýa mun dreifa hjálpargögnunum á næstu dögum og fær aðstoð við að sameinina fjölskyldur sem hafa sundrast og leita að týndu fólki.

Alþjóða Rauði krossinn dreifir einnig sjúkragögnum og lyfjum til sjúkrastofnana til að gera þeim kleift að hlúa að þeim sem særst hafa í átökunum. Aukið magn sjúkragagna hefur þegar verið sent til landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert