Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, segir í rökstuðningi fyrir ráðningu í starf orkumálastjóra, að Guðni A. Jóhannesson, sem ráðinn var, hafi sterka framtíðarsýn fyrir Orkustofnun og sé líklegri en aðrir umsækjendur til að hleypa nýju blóði í starfsemi hennar.
Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, aðstoðarorkumálastjóri, óskaði eftir rökstuðningi ráðherra en hún var ein af umsækjendunum um stöðuna.
Í svari ráðherra segir m.a., að umhverfisþáttur orkuferlisins og hlutur hans í sjálfbærri þróun samfélagsins sé sérstakt áhugamál og viðfangsefni Guðna svo og ímynd íslenskrar orku og orkutengdar framleiðslu á alþjóðlegum markaði.
Þá segir, að samskiptahæfileikar veki sérstaka athygli í ferli Guðna en hann hafi m.a. unnið að auknum tengslum rannsókna við atvinnulífið og samfélagið. Hann sé virtur innan alþjóðasamfélagsins og eftirsóttur fyrir fyrirlestrahalds á alþjóðavettvangi.
Þá hafi hann verið í hlutverki ráðgjafa fyrir ríkisstjórnir, bæði þær sænsku og íslensku og þess sé skemmst að minnast að hann var nýlega kvaddur til fundar við forsætisráðherra Svía til að kynna honum möguleika í orkunýtingu.