Sló mann með straujárni í höfuðið

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í 10 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás en árásarmaðurinn sló hinn manninn m.a. ítrekað í höfuð og líkama með straujárni. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða þeim sem hann réðist á 319 þúsund krónur í bætur.

Sá sem fyrir árásinni varð hlaut m.a. mar á heila, heilahristing og skurði og aðra áverka á höfði. Þá brotnuðu þrjár tennur og sex losnuðu.

Árásin var gerð í íbúð í Reykjavík í mars árið 2006 en árásarmaðurinn réðist þar inn ásamt tveimur öðrum mönnum og misþyrmdi manni sem þar var gestkomandi.

Í niðurtöðu dómsins segir að árásin hafi verið ofsafengin  og  telja verði að hending ein hafi ráðið að árásin hafi ekki leitt til alvarlegra líkamsmeiðsla og jafnvel varanlegra örkumla.

Árásarmaðurinn hélt því fram að  tilefni árásarinnar hafi verið það að hinn maðurinn hafi stuðlað að því að 14 ára systir hans hafi ánetjast fíkniefnum. Þegar þeir hafi hist umrætt sinn hafi brotist út hjá ákærða skyndileg og sjúkleg ofsareiði, sem honum hætti til að fá.

Dómurinn segir að ekkert  liggi þó fyrir í málinu um að þessi fullyrðing um tilefni árásarinnar hafi átt við rök að styðjast og ekki er heldur fallist á að geðhagir ákærða geti afsakað gerðir hans með einhverjum hætti.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn hefur áður verið dæmdur í sektir fyrir fíkniefnabrot. Þá var hann dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að sprengja  rörasprengju í inngangi verslunarhúsnæðis og sekt fyrir líkamsárás.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert