„Við náðum tveimur vísundum og erum ánægðir með það," sagði veiðimaðurinn Páll Reynisson í samtali við bandaríska vefmiðilinn Park Rapids Enterprise fyrir helgi. Páll er eigandi Veiðisafnsins á Stokkseyri, en hann fór nýverið til Minnesota í Bandaríkjunum á vísundaveiðar.
Vísundarnir tveir sem Páll veiddi ásamt Jónasi Sigurðssyni bætast í magnaðasta safn uppstoppaðra dýra á landinu, en ljón, sebrahestar, gíraffi, hreindýr, apar, selir, bjarndýr og sauðnaut eru þeirra á meðal. Páll og Jónas skutu báðir fimm skotum á dýrin, með 45-70 kalíbera Thompson Contender-skammbyssu.
„Áætlunin var að skjóta tveimur skotum í lungun [á vísundunum]," sagði Páll, en þannig vonaðist hann til þess að vísundarnir dræpust fljótt. Það kom honum því nokkuð á óvart að fimm skot skyldi þurfa til að drepa hvorn vísund.
„Ég bjóst við að tvö til þrjú skot myndu duga, en fimm? Nei."