Anna Sigurlaug Pálsdóttir mannfræðingur hefur skrifað borgaryfirvöldum og boðið fram aðstoð sína í sambandi við endurbyggingu húsanna við Laugaveg 4 og 6. Segir hún í bréfinu afar mikilvægt að húsin fái að standa áfram á sínum stað, en sé ekki hægt að tryggja húsunum veru þar býðst hún til að gera þau upp í upprunalegri mynd flytji borgin húsin á stað í grennd við miðbæinn, svo sem í Hljómskálagarðinn eða í nágrenni Vatnsmýrarinnar.
Fram kemur einnig að Anna muni fela Landsbankanum að senda borgaryfirvöldum staðfestingu þess að hún hafi fjárhagslega burði til þess að taka að sér verkefnið, en samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er hún dóttir Páls Samúelssonar, fyrrverandi eiganda Toyota-umboðsins, og konu hans Elínar Sigrúnar Jóhannesdóttur.
Anna vildi lítið tjá sig um málið er Morgunblaðið ræddi við hana í gærkveldi en vísaði á erindi sitt til borgaryfirvalda. Sagði hún mikilvægt að endurnýja húsin á sínum stað og halda heildarmynd götunnar. Það væri besti kosturinn en að öðrum kosti væri mikilvægt að varðveita húsin annars staðar. Í erindi Önnu er vakin athygli á því að í Bretlandi þyki mikill fengur að sem flestum friðuðum húsum. Rakin eru dæmi um vel heppnaða endurbyggingu gamalla húsa hér og segist hún jafnframt þegar hafa látið teikna húsin upp fyrir sig í því sem næst upprunalegri mynd ásamt tengihúsum sem löguð yrðu að gömlu húsunum. Ljóst sé að kostnaður við endurgerð sé talsvert meiri en hugsanlegt söluverð, einkum ef húsin verði flutt burt.