Íslendingur kom fyrir rétt í Newark í New Jersey í vikunni þar sem honum var birt ákæra fyrir stórfellt peningaþvætti í tengslum við fíkniefnamál. Maðurinn var handtekinn á Indlandi í september eftir að alþjóðalögreglan Interpol lýsti eftir honum um allan heim.
Bandarísk yfirvöld kröfðust framsals Íslendingsins, sem heitir Gunnar Stefán Möller Wathne, en að því er kemur fram á fréttavefMarin Independent Journal féllst hann að lokum á að fara til Bandaríkjanna og koma þar fyrir dóm. Hann var látinn laus gegn 5 milljóna dala tryggingu.
Rannsóknarkviðdómur í San Francisco ákærði Stefán fyrir að þvætta peninga á árunum 1996-2000 fyrir mann, sem varð uppvís að því að framleiða ofskynjunarlyfið LSD í stórum stíl í Kansas í Bandaríkjunum. Sá maður afplánar nú ævilangt fangelsi.
Að sögn fréttavefjarins hafa bandarísk stjórnvöld ekki viljað upplýsa um hve háar fjárhæðir er að ræða í máli Stefáns. Hann er sagður eiga yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi og hálfrar milljónar dala sekt, verði hann fundinn sekur.
Frétt Marine Independent Journal