Dómnefnd segist sitja áfram þrátt fyrir óvandaða stjórnsýslu ráðherra

Dómnefnd sem fjallaði um hæfi umsækjenda um embætti héraðsdómara á Norðurlandi eystra nýlega, segist ekki ætla að segja af sér þótt settur dómsmálaráðherra hafi við skipun í embættið farið langt út fyrir takmörk, sem veitingavaldinu séu sett við val sitt á umsækjendum.

Nefndin segir í greinargerð, sem hún hefur sent frá sér, að í þau sextán ár, sem dómnefnd hafi verið að verki vegna umsókna um störf héraðsdómara, hafi dómsmálaráðherrar fram að þessu iðulega virt rökstudda niðurstöðu nefndarinnar þótt þeir hafi ekki ævinlega valið þann umsækjanda, sem dómnefnd setti í fyrsta sæti, ef slíkri röðun var beitt, heldur valið annan úr hópi þeirra, sem taldir voru hæfastir.

„Eins og tilgangi með tilvist dómnefndar af þessu tagi er háttað er hins vegar óhjákvæmilegt að ætla að veitingarvaldinu séu einhver takmörk sett við val sitt, að minnsta kosti með hliðsjón af góðum og vönduðum stjórnsýsluháttum og raunar ekki síður sjálfstæði dómstólanna. Dómnefndin telur að settur dómsmálaráðherra hafi við skipun í embætti héraðsdómara nú farið langt út fyrir slík mörk og tekið ómálefnalega ákvörðun, sem er einsdæmi frá því að sú tilhögun var tekin upp að sérstök nefnd legði rökstutt hæfnismat á umsækjendur.

Með þessari ákvörðun hefur ráðherra ekki aðeins vegið að starfsheiðri og tilverugrundvelli dómnefndarinnar heldur einnig gengið í berhögg við það yfirlýsta markmið með stofnun hennar á sínum tíma að styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins og einvörðungu valdir samkvæmt hæfni. Þegar jafn óvönduð stjórnsýsla og nú er raunin er viðhöfð við veitingu dómaraembættis kemur vissulega til greina að dómnefndin leggi niður störf enda er ljóst að ráðherra metur verk hennar einskis. Í trausti þess að ákvörðun hins setta dómsmálaráðherra verði áfram einsdæmi við veitingu dómaraembætta mun dómnefndin hins vegar ekki velja þann kost, enda er starf hennar lögbundið og hefur jafnan verið metið að verðleikum með þessari einu undantekningu," segir m.a. í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert