Geysilegum uppgangi og fjölgun starfsmanna í íslenska fjármálageiranum er lokið, að minnsta kosti um stundarsakir.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ríkir nú ráðningarstöðvun hjá flestum fjármálastofnunum á íslenska fjármálamarkaðnum, hvort sem um viðskiptabanka, sparisjóði, verðbréfafyrirtæki eða fjárfestingarfyrirtæki er að ræða.
Heimildarmenn Morgunblaðsins úr fjármálageiranum eru þeirrar skoðunar, að þetta séu eðlileg og skiljanleg viðbrögð fjármálafyrirtækja, því útilokað sé að segja til um það, hversu lengi sú niðursveifla kemur til með að vara, sem nú ríkir, og jafnútilokað sé að segja til um það, hvenær botninum verði náð.
Á liðnu ári mun störfum í fjármálageiranum íslenska hafa fjölgað um nálægt 650 stöðugildi og telja sérfróðir menn á fjármálamarkaði að fækkun starfsmanna í fjármálageiranum á þessu ári muni að minnsta kosti nema þeirri tölu.
Ráðningarstopp hefur ríkt um nokkurra vikna skeið og þarf ekki annað en fletta raðauglýsingablaði sunnudagsblaðs Morgunblaðsins nokkrar vikur aftur í tímann til að sjá að bankar og fjármálastofnanir halda að sér höndum og auglýsa ekki eftir nýju starfsfólki.
Fjölgun starfsmanna á liðnum árum hefur verið geysimikil og ör, meðal annars með tilkomu fjölda nýrra fjármálafyrirtækja. Þá hafa fyrirtæki eins og Saga Capital, Askar Capital, FL Group, Gnúpur og fleiri ráðið til sín fjölda starfsmanna, um 160 manns, auk þess sem aðrar fjármálastofnanir sem fyrir voru á markaði hafa einnig aukið nýráðningar.
Nú sé á hinn bóginn ekki ráðið í stað þeirra sem láta af störfum. Í mörgum fjármálastofnunum sé verið að undirbúa uppsagnir og viðbúið að búið verði að segja upp fjölda starfsmanna þegar fyrir 1. febrúar nk.
Hjá viðskiptabönkunum þremur, Kaupþingi, Glitni og Landsbankanum, var sagt í gær að ekki væri hægt að tala um ráðningarstöðvun. Vöxtur fyrirtækjanna hefði verið afar mikill á síðasta ári og fjölmargir starfsmenn ráðnir. Því væru fyrirtækin vel mönnuð. Engar ákvarðanir hefðu verið teknar um uppsagnir að svo stöddu.