Ekki er enn komið í ljós hvort Eykt tekur að sér framhald verkefnis við tvöföldun Reykjanesbrautar, sem Jarðvélar sögðu sig frá skömmu fyrir jól. Að sögn Jónasar Snæbjörnssonar, svæðisstjóra suðvestursvæðis hjá Vegagerðinni, var Eykt ekki aðili að samningnum við Vegagerðina um verkið, heldur undirverktaki hjá Jarðvélum.
Jónas segir ekki komið í ljós hvernig verkinu verði skilað. „Það hefur komið til álita að undirverktakarnir taki yfir,“ segir hann. Að öðrum kosti verði efnt til nýs útboðs. Til stóð að verkinu yrði skilað 15. júlí í sumar og segir Jónas ljóst að skilafresturinn muni lengjast eitthvað.