Fjöldi vírus- og bakteríusýkinga gengur nú yfir landsmenn og samkvæmt upplýsingum Landlæknisembættisins kom upp eitt tilfelli inflúensu B hérlendis fyrir síðustu jól.
Atli Árnason, yfirlæknir heilsugæslu Grafarvogs, segir ástandið eðlilegt pestarástand miðað við árstíma, „ Við verðum mikið vör við vírussýkingar eins og gubbupestir og magakveisur," segir Atli og jafnframt að bakteríusýkingar geti fylgt í kjölfar vírussýkinga, fari fólk ekki vel með sig. Það geti m.a. orsakað kinnholubólgu, berkjubólgu og jafnvel lungnabólgu.
Streptókokkasýkingar eru einnig algengar bakteríusýkingar og gera fyrst og fremst vart við sig í hálsi, þær eru meðhöndlaðar með sýklalyfjum. Komum á bráðamóttöku barna á Landspítalanum í desember 2007 fjölgaði um 41% frá sama mánuði árinu áður. Ingileif Sigfúsdóttir, deildarstjóri bráðamóttökunnar, segir helstu orsökina vera RS-faraldurinn, sem hafi verið óvenjusnemma á ferðinni í þetta skipti.
Haraldur Briem, sviðsstjóri sóttvarnarsviðs Landlæknisembættisins, segir aðeins eitt tilfelli inflúensu B hafa greinst hér á landi fyrir jól, en inflúensa B er ekki eins skæð og inflúensa A.