Samtök atvinnulífsins segja, að þau hafi lengi gert það ljóst, að það sé ekki vilji til að ganga frá nýjum kjarasamningum nema breyting verði á peningamálastefnu Seðlabankans. Vaxtastefna bankans sé í hreinni sjálfheldu og nú fari langtímavextir á markaði lækkandi þrátt fyrir hina háu stýrivexti.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdatjóri SA, segir í fréttabréfi samtakanna, að nú þegar afleiðingar niðursveiflunnar á fjármálamarkaðnum komi sífellt betur í ljós sé nauðsynlegt að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins ræði strax hvað skynsamlegt sé að gera ef atvinnuleysi fari að grafa um sig næsta haust. Það geti vel orðið raunin því að smám saman muni hægja á fjárfestingum og draga úr eftirspurn eftir starfsfólki ef fjármálamarkaðirnir rétti ekki úr kútnum á næstu mánuðum.
„Þess vegna verður sem fyrst að hefja undirbúning þess að flýta opinberum framkvæmdum og að skipuleggja nýjar framkvæmdir ef í óefni stefnir. Ennfremur þarf að tryggja að þær miklu fjárfestingar sem eru á borðinu í áliðnaði og víðar fái eðlilegan framgang," segir Vilhjálmur m.a. í fréttabréfinu.