Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að Pólverji, sem grunaður er um að hafa ekið á fjögurra ára gamlan dreng í Reykjanesbæ í vetur, sæti áframhaldandi farbanni til 29. janúar. Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að maðurinn hafi orðið margsaga í málinu.
Í úrskurði héraðsdóms er vísað í greinargerð lögreglu þar sem kemur fram, að maðurinn hafi verið stöðvaður daginn eftir slysið þar sem hann var undir stýri á bíl. Hann var spurður um brotið vinstra framljós á bifreiðinni og sagði lögreglu þá að hann hefði lent í óhappi daginn áður en það er dagurinn þegar ekið var á drenginn.
Bíllinn bar merki ákomu vinstra megin að framan og var m.a. framljós þeim megin brotið. Lögregla telur skemmdir á bílnum nýlegar. Fram kemur í greinargerð lögreglu að maðurinn hafi ekki gengist við því að hafa ekið á drenginn en mikils ósamræmis hafi gætt í framburði hans, hann orðið margsaga m.a. um það hvar hann var staddur á þeim tíma þegar ekið var á barnið.
Þá hafi komið fram ósamrýmanlegir framburðir um það, bæði hjá manninum og vitnum um hvenær og hvernig framljós bifreiðarinnar brotnaði. Tæknirannsókn lögreglu á bifreiðinni hafi m.a. leitt í ljós að tautrefjar fundust á bifreiðinni en bráðabirgðaniðurstöður rannsóknastofu norsku lögreglunnar, sem send voru sýni til rannsóknar, sem lögreglu bárust upplýsingar samrýmist því að vera úr rauðri flíspeysu, sem drengurinn klæddist. Fullnaðarniðurstöður frá rannsóknarstofu norsku lögreglunnar eru hins vegar enn ókomnar til.
Þá kemur fram í greinargerð lögreglu að framburðir vitna, sem hafa verið yfirheyrð, hafi verið misvísandi innbyrðis og borið illa saman við framburði mannsinsþótt málið hafi skýrst. Ítarleg tæknileg rannsókn á bilnum þyki renna sterkum stoðum undir að honum hafi verið ekið á barnið. Meðal gagna sem aflað hafi verið sé skýrsla skráðs eiganda bílsins um að maðurinn, sem handtekinn var, hafi einn haft aðgang að og ekið bílnum.
Lögreglan segir að ljóst þyki að reynt hafi verið að villa um fyrir rannsókn hennar í málinu og verði að telja líklegt að það sé frá manninum komið.