Undanfarnir mánuðir hafa verið bjórframleiðendum erfiðir. Hráefni til bjórgerðar hefur hækkað gríðarlega í verði og birgjar hér á landi hafa sumir hverjir þegar hækkað verð sitt en aðrir boðað verðhækkanir á næstu mánuðum. Hækkunin mun þó hafa minni áhrif á neytendur en verðhækkun birgja gefur til kynna, sökum gjaldtöku á áfengi.
„Verðhækkun er óumflýjanleg á þessum tímapunkti,“ segir á vef Vífilfells en þar er jafnframt tilkynnt að 4. febrúar nk. muni bjór hækka að meðaltali um 9,5%. Árni Stefánsson forstjóri segir að það sé undir því sem þyrfti. Verð á humlum hafi hækkað um 90%, malti 33% og byggi um 50% – og búast má við frekari hækkunum.
„Ég heyrði að Bretar spái allt að 50% hækkun á bjór á Bretlandseyjum í ár,“ segir Árni en bendir jafnframt á að það verði ekki 9,5% hækkun á útsöluverði. „Það á eftir að reikna út skatta og gjöld, þannig að hækkun úr ÁTVR er sáralítil því meginuppistaðan er skattar.“
Ölgerðin hækkaði verð á bjór um áramót og nam hún að meðaltali 6%. Ekki skiptir máli hvort um er að ræða innlendan eða innfluttan bjór. „Við hefðum þurft að hækka meira, en það er erfitt að hreyfa sig í samkeppnisumhverfi,“ segir Friðjón Hólmbertsson, framkvæmdastjóri hjá Ölgerðinni.
Rolf Johansen & Company hefur þegar hækkað verð á einni tegund og gert er ráð fyrir að aðrar muni hækka, í síðasta lagi 1. mars. Gert er ráð fyrir að hækkunin verði um eða yfir 8%.
Hjá bæði Karli K. Karlssyni og HOB-vínum hefur ekki verið tekin ákvörðun um verðhækkanir enn sem komið er, en vel er fylgst með mörkuðum. Hjá HOB fengust þær upplýsingar að ekki yrði hækkað á næstu sex mánuðum en Karli K. að minnsta kosti ekki þennan mánuðinn. Þá hafa engar ákvarðanir verið teknar hjá Vínkaupum.