Páll Stefánsson er Vestlendingur ársins

Páll Stefánsson.
Páll Stefánsson.

Páll Stefánsson á Hellissandi hefur verið kjörinn Vestlendingur ársins 2007 í árlegu vali Skessuhorns, að því er segir í fréttatilkynningu. „Í mörg ár hefur hann farið fyrir hópi vaskra manna sem í sjálfboðavinnu hafa bjargað mörgum mannslífum úr sjávarháska á björgunarbátum sem gerðir hafa verið út frá Snæfellsnesi.“

Tíunda árið í röð gekkst Skessuhorn fyrir vali á Vestlendingi ársins. Samkvæmt venju sendu lesendum inn tilnefningar og var eina skilyrðið að þeir sem tilnefndir voru væru búsettir í landshlutanum. Að þessu sinni var niðurstaðan í kjörinu mjög afgerandi. Um 60% þeirra sem sendu inn tilnefningar kusu Pál.

„Fyrir giftusamlega björgun á Úllu SH í september sl. og fyrir störf hans að björgunarmálum yfirleitt var Páll langhæstur í kjörinu á Vestlendingi ársins 2007,“ segir í tilkynningunni.

 Aðrir sem hlutu fleiri en þrjár tilnefningar voru í stafrófsröð: Ásgeir Sæmundsson sjúkraflutningamaður í Borgarnesi , Brynjar H Sævarsson 7 ára í Borgarbyggð vegna björgunar á yngri systkinum sínum úr bruna, Guðjón Þórðarson knattspyrnuþjálfari á Akranesi, Guðmundur Ingi Einarsson í Borgarnesi fyrir góðan árangur í boccia á heimsleikum, lögreglumenn á Vesturlandi fyrir árangur í baráttunni gegn akstri undir áhrifum áfengis og fíkniefna, Pétur Þórðarson matreiðslumaður á Hótel Búðum, Sigríður Margrét Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Landnámsseturs í Borgarnesi og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert