„Við leitum að röskum félagsráðgjafa til afleysinga í 3-4 mánuði,“ sagði í atvinnuauglýsingu á vegum Félagsþjónustu Hafnarfjarðar sem birt var í desembermánuði, bæði í prentmiðlum og á vefsíðu Hafnarfjarðarbæjar. Orðalagið þótti Stöðugildanefnd Félagsráðgjafafélags Íslands ótækt og niðrandi og var sent kvörtunarbréf til forstöðumanns Félagsþjónustunnar á þriðjudag.
Hann auglýsir að nýju eftir ráðgjafa í næstu viku en mun ekki breyta orðalaginu. Aftur verður auglýst eftir röskum einstaklingi.
Sæmundur Hafsteinsson, forstöðumaður Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði, segir að í bréfinu hafi nefndin lýst óánægju sinni með niðrandi orðalag í auglýsingunni og var þar átt við lýsingarorðið röskur. Sæmundur segir það á margan hátt merkilegt, ekki síst út frá máltilfinningu og þróun tungumálsins, og á von á því að orðið verði notað í auknum mæli á vinnustaðnum í kjölfarið.
Formaður nefndarinnar vildi ekki tjá sig um málið en benti á formann Félagsráðgjafafélagsins. Páll Ólafsson, formaður, segir að stjórnin hafi ekki gert athugasemd við auglýsinguna en nefndir félagsins séu sjálfstæðar og Stöðugildanefnd eigi í raun að hafa skoðun á slíkum auglýsingum. „Kjarninn í því sem Stöðugildanefnd bendir á er að ekki er auglýst eftir röskum sálfræðingi eða röskum lækni. Af hverju ætti þá að óska eftir röskum félagsráðgjafa?“