Sýknaðir af ákæru fyrir ölvunarakstur

Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað tvo karlmenn af ákæru fyrir ölvunarakstur.

Annar mannanna var ákærður fyrir að aka frá  tjaldstæði á Kirkjubæjarklaustri  og inn á keppnissvæði mótorkrossmanna. 

Hinn var ákærður fyrir að aka bíl ölvaður um heimreið við Brjánsstaði á Skeiðum og  þaðan norður Skeiðaveg að Flúðum í Hrunamannahreppi þar sem bíllinn fór fram af plani við bensínstöðina á Flúðum, í gegnum gróðurbelti og aftur inn á planið og endaði ferðina á ruslagámum.

Dómurinn segir í fyrra málinu, að engin rannsókn hafi farið fram. Engin skýrsla hafi verið að hinum ákærða, sem  neitaði sök, og engar skýrslur  af vitnum. Sé þetta aðfinnsluvert. 

Í hinu málinu byggðist ákæran á framburði vitnis, sem sagði að maðurinn sem ákærður var hefði ekið bílnum. Annar maður var hins vegar undir stýri þegar lögreglan kom að og  bar hann í yfirheyrslum hjá lögreglu, að hinn maðurinn hefði ekið. Fyrir dómi dró maðurinn hins vegar þann framburð til baka og sagðist hafa ekið bílnum allan tímann. Segir dómurinn, að ekki sé komin fram lögfull sönnun fyrir því að maðurinn sem ákærður var hafi ekið í þetta sinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert