„Ef maður er á bakpokaferðalagi og tekur síðustu rútuna að kvöldi til að ná flugi klukkan sjö að morgni, af því að það eru engar rútur svo snemma á morgnana, er manni hent út," sagði Þjóðverjinn Reik í bréfi til þýska tímaritsins Der Spiegel.
Der Spiegel hvatti lesendur sína nýlega til að senda inn hryllingssögur af flugvöllum. Reik skrifaði tímaritinu og sagði farir sínar ekki sléttar eftir bakpokaferðalag á Íslandi.
„Ég mátti ekki einu sinni sofa sitjandi, hvað þá liggjandi," hélt Reik áfram. „Það var líka bannað að tjalda á bílastæðinu. Fyrir notendur almenningssamgangna og hina mörgu bakpokaferðalanga á Íslandi er þetta raunverulegt vandamál."
Elín Árnadóttir, forstjóri Leifsstöðvar, segir flugrúturnar alltaf vera tengdar brottförum og komum. Hann hefur greinilega misskilið kerfið," segir hún. „Við höfum ekki leyft fólki að búa sér til náttstað í flugstöðinni. Það er alveg bannað. Það hefur meira að segja gengið svo langt að fólk hafi byrjað að elda sér mat í flugstöðinni."