Athugun Vegagerðarinnar á þeim kosti að Sundabraut verði lögð í jarðgöng hefur leitt í ljós að sú lausn er tæknilega möguleg en kostnaðurinn er hins vegar mun meiri en áður var talið, eða 24 milljarðar króna með vegtengingum.
Jarðgangalausn væri því um níu milljörðum króna dýrari kostur en svokölluð eyjalausn.
Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar sem segir að fyrir þennan mismun megi gera mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, leggja Miklubraut í stokk vestur fyrir Lönguhlíð og Kringlumýrarbraut í stokk suður fyrir Listabraut. Auk þess yrði rekstrarkostnaður ganganna töluverður og mun meiri en til dæmis af Hvalfjarðargöngum, enda er í raun um tvenn Sundagöng að ræða og öryggiskröfur yrðu ríkari vegna margfalt meiri umferðar. Vegagerðin áætlar að rekstur Sundaganga myndi kosta að minnsta kosti 200 milljónum króna meira á ári en eyjalausnin.
Vegagerðin segir að eyjalausnin feli ekki í sér að umferð aukist um Skeiðarvog eins og íbúar óttist þótt Sundabrautin muni að sjálfsögðu breyta umferðinni hvar sem brautin verði lögð. Röskunin verði eigi að síður mun meiri með jarðgöngum en eyjalausn.
Vegagerðin kveðst ekki geta mælt með því að jarðgangalausnin verði valin þar sem eyjalausnin sé mun betri kostur tæknilega, fjárhagslega og hvað umferðina áhrærir. Eyjalausnin gefi miklu meiri arðsemi af því fjármagni sem til framkvæmdanna sé varið.
Vegagerðin segir afstöðu sína alveg skýra og nú sé komið að stjórnmálamönnum að taka af skarið um hvaða lausn verði valin og hvernig skipta eigi kostnaðinum.