Kvikmyndin „The Bucket List” með stórleikurunum Jack Nicholson og Morgan Freeman í aðalhlutverkum verður frumsýnd í Bandaríkjunum í dag. Í tengslum við myndina hefur verið ráðist í kynningu á Íslandi.
Auglýsingar hafa verið settar í dagblöð þar sem lesendum gefst kostur á að taka þátt í leik og vinna ævintýraferð til Íslands fyrir tvo.
Kynningunni er beint að íbúum Los Angeles, Chigago og Philadelphiu.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem skrifstofa Ferðamálastofu í Bandaríkjunum notar þessa leið við markaðssetningu á Íslandi.
Í maí síðastliðnum var farið í svipaða kynningu í tengslum við myndina „Shrek the Third” og þótti kynningin bera góðan árangur. Tugþúsundir Bandaríkjamanna tóku þátt í leiknum og freistuðu þess að krækja sér í ókeypis ferð til Íslands.
Að sögn Einars Gústavssonar, forstöðumanns skrifstofu Ferðamálastofu í New York, er búist við að svipað verði upp á teningnum nú.