Íslenskar konur mega bera brjóstin

„Við stökkvum ekki á konur sem klæða sig úr toppnum á sólardögum og segjum þeim að fara í aftur," segir Haukur Geirmundsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi Seltjarnarnesbæjar. Engar sérreglur eru um baðfatnað kvenna í sundlaugum á Íslandi.

Sænskar kynsystur þeirra í samtökunum Bara bröst hafa barist fyrir jafnrétti í baðfatareglum í Svíþjóð, þar sem þeim er gert að hylja barm sinn í sundlaugum. Þær staðhæfa að sér sé mismunað og finnst að þær megi baða sig berar að ofan.

Talsmaður samtakanna segir að baráttan sé liður í að draga úr kynvæðingu konubrjósta. Árangurinn stendur ekki á sér og sundhöllin í Sundsvall í Svíþjóð hefir gefið konum leyfi til að baða sig berbrjósta.

Haukur segir engar reglur gilda um baðfatnað kvenna á Seltjarnarnesi. „Við höfum ekki þurft að setja reglur útaf þessu vegna þess að þetta er ekki vandamál. Þær liggja berbrjósta á sólarbekkjum og þetta er ekkert sem plagar fólk."

Pétur Ingvarsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi í Hveragerði, segist ekki muna eftir reglum um baðfatnað kvenna í sundi. „Þegar þær fara í sólbað fara þær oft úr að ofan," segir hann. „Það hefur enginn viljað gera neitt í því, allavega ekki karlmenn."

Kristín Tómasdóttir, ráðskona í öryggisráði Femínistafélags Íslands, segir ólíklegt að félagið taki svipað mál fyrir, en sér ekkert að því að konur stundi sundlaugarnar berbrjósta. „...En ef það er í þeim tilgangi að einhverjir klámkóngar græði á því er það allt annað mál," segir Kristín. „Ef konur langar að baða sig berar að ofan þá gera þær það - ekkert að því. Ég myndi alveg skella mér í þessa sundlaug ef ég væri stödd nálægt henni í Svíþjóð."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert