Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hefur ákveðið að fjölga slökkvistöðvum á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum og byggja tvær stöðvar í stað stöðvarinnar við Tunguháls, sem verður lokað. Þá verður fjölgað stöðugildum á forvarnasviði. Þetta kom fram á blaðamannafundi, sem Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri, héldu í dag.
Á fundinum var einnig fjallað um þá tíðu eldsvoða, sem orðið hafa á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu en í mörgum tilfellum virðist sem eldur hafi verið kveiktir viljandi.
Fram kom, að stór hluti heimila á Íslandi sé án lágmarks eldvarna. Enginn eða aðeins einn reykskynjari sé á nærri helmingi heimila í höfuðborginni og innan við helmingur heimila er með reykskynjara, handslökkvitæki og eldvarnateppi. Þá sé ljóst að víða skorti á að eldvarnir í fjölbýlishúsum séu viðunandi.
Á fundinum kom fram að þúsund manns búa í húsnæði á vegum borgarinnar. Það hafi verið leiðarljós Félagsbústaða að búa sem best að íbúum en farið verði yfir hvort gera þurfi enn betur í eldvörnum í þessum íbúðum.
SHS mun bjóða húsfélögum á svæðinu að skoða eldvarnir í sameign fjölbýlishúsa án endurgjalds. Forráðamenn húsfélaga eru hvattir til að notfæra sér þessa þjónustu. Innan stjórnar SHS verður rætt hvernig stjórnin geti kynnt þessa þjónustu betur og aukið fræðslu um eldvarnir í fjölbýlishúsum.