SUS: Laugavegshúsin verði ekki friðuð

Samband ungra sjálfstæðismanna hvetur menntamálaráðherra til að hafna ósk Húsafriðunarnefndar um friðun húsanna á Laugavegi 4-6, segir í tilkynningu frá sambandinu í kvöld. Það sé algjörlega ótækt að draumur eigenda húsanna og Reykvíkinga um uppbyggingu á reitnum sé nú í uppnámi vegna skyndilegs viðsnúnings Húsafriðunarnefndar.

Það muni reynast miðbænum banabiti ef fjárfestar og verslunareigendur eigi það á hættu að margra ára undirbúningsvinna verði að engu korteri áður en framkvæmdir eiga að hefjast.

„Undirbúningur að uppbyggingu á viðkomandi reit hefur staðið yfir um margra ára skeið bæði að hálfu eigendanna og borgarinnar. Deiliskipulag svæðisins var kynnt, rætt og samþykkt innan borgarkerfisins. Íbúum gafst tækifæri á að gera athugasemdir við byggingaráformin og eigendur lóðarinnar hafa sýnt mikla viðleitni í þá átt að taka tillit til þeirra.“

„Eins er nýlega lokið heildarvinnu við friðun húsa á Laugaveginum og voru umrædd hús ekki á þeim lista sem friða átti. Niðurstöður þeirrar vinnu má skoða í svokölluðum Laugavegsbæklingi sem gefinn var út árið 2005. Ritstjóri bæklingsins er Nikulás Úlfar Másson, núverandi formaður Húsafriðunarnefndar.“

„Ummæli formanns nefndarinnar í viðtali við Morgunblaðið sýna auk þess að nefndin hefur farið langt út fyrir valdsvið sitt við ákvarðanatökuna. Formaðurinn telur þar að nefndin hefði ekki getað tekið ákvörðun um friðunina fyrr en fyrir lægi hvað ætti að „koma í staðinn". Af lögum um húsafriðun er ljóst að hlutverk nefndarinnar er að standa vörð um byggingafræðilegan arf þjóðarinnar, en ekki að vera fagurfræðilegur dómstóll fyrir allar nýbyggingar í miðbænum, eins og formaðurinn virðist telja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert