„Ég skil, í ljósi umræðu um Grímseyjarferju og aðrar framkvæmdir, að menn vilji hafa bæði belti og axlabönd. En þarna er horft til þeirra ganga sem dýrust eru í heiminum og þeirra dýrustu sem gerð hafa verið á Norðurlöndum á undanförnum árum. Þarna er vel lagt í alla liði," segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, um skýrslu sem Vegagerðin gerði opinbera í gær um kostnað við lagningu Sundabrautar í jarðgöng.
Þar kemur fram að slík framkvæmd myndi kosta 24 milljarða króna í stað þeirra 15,9 milljarða króna sem áður var áætlað. Því mælir Vegagerðin með svokallaðri eyjalausn sem sé níu milljörðum króna ódýrari.
Göngin sem Dagur talar um eru Södra Länken-göngin í Stokkhólmi en sérstök skoðunarferð var farin þangað við gerð skýrslunnar. Dagur segir hana bæta við alla verkliði frá þeirri áætlun sem áður var miðað við.
„Menn hafa greinilega vaðið fyrir neðan sig. Það er farið úr því að hönnun og eftirlit kosti átta prósent í að það kosti fimmtán prósent, sem er jafnmikið og á Kárahnjúkum. Þegar útboð hafa verið opnuð þá hef ég nú sannfæringu fyrir því að ýmsar af þessum tölum verði umtalsvert lægri en í skýrslunni."
Gauti Kristmannsson, fulltrúi Íbúasamtaka Laugardals í samráðshópi um legu Sundabrautar, segir staðlana sem miðað er við í skýrslunni nýja í íslenskri jarðgangagerð. Hann vill fá að vita hver ákvað að beita þeim nú.
„Mér skilst að það hafi einfaldlega verið skipt um staðla. Þá eru þetta einfaldlega talnakúnstir.
Þessir staðlar sem verið er að beita eru nýir og þýða í fyrsta lagi að verðið hækkar. En það hlýtur þá að þýða að önnur göng, til dæmis Vaðlaheiðargöng, verða miklu dýrari. Það væri allavega mjög einkennilegt ef það ætti bara að beita þeim á göng fyrir Reykvíkinga.
„Hreinn Halldórsson, framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni, segir staðlana einungis hafa verið uppfærða. „Það er nýkomin út Evróputilskipun um lágmarksöryggi í jarðgöngum. Síðastliðin 20 til 30 ár höfum við notað norska jarðgangastaðla og nýjasta útgáfan af þeim var birt í desember 2006. Þar er búið að færa inn þessa tilskipun og því er tekið mið af henni í þessari úttekt. Það þýðir aukinn kostnað."