Samþykkt var á fundi í hverfisráði Breiðholts í gær tillaga sem gerir ráð fyrir því að gatnamótum Bústaðarvegar og Reykjanesbrautar verði breytt með þeim hætti að gerð verði aukaakrein meðfram Reykjanesbraut í norður sem liggur í göng undir Reykjanesbrautina.
Þá verði, samkvæmt tillögunni sem sjálfstæðismenn í ráðinu lögðu fram, jafnframt gert hringtorg fyrir ofan Sprengisand og grænt svæði við íbúðabyggð austast í Fossvogi stækkað, samkvæmt tilkynningu. Kemur fram að áhersla verði lögð á umhverfisvæna lausn sem tekur mið af því að í næsta nágrenni eru Elliðaárnar.
Þá verði séð til þess að nýi vegurinn liggi eins nálægt núverandi vegi og kostur er þannig að ekki fari of mikið landsvæði í þessa miklu samgöngubót fyrir borgarbúa. Var samþykkt á fundi hverfisráðsins að vísa tillögunni til umhverfisráðs og framkvæmdaráðs borgarinnar.