Pétur Ármannsson, arkitekt og varaformaður húsafriðunarnefndar, leggur til að ágóði af sölu uppgerðra húsa í eigu Reykjavíkurborgar, svo sem hússins á Fríkirkjuvegi 11, verði settur í sjóð sem síðan yrði notaður til að kaupa fleiri gömul hús með menningarsögulegt gildi og gera þau upp.
„Íslenskur byggingararfur er ekki íþyngjandi í þeim skilningi að það mun ekki kosta stórar upphæðir að halda honum við. Það er með öðrum orðum lítill sem enginn fórnarkostnaður við það að varðveita það litla sem við eigum,“ segir Pétur.
Það er heldur ekki eins og Reykjavíkurborg hafi tapað fé á inngripi sínu til þessa. „Besta dæmið um það er húsið á Fríkirkjuvegi 11. Það var selt einstaklingi fyrir 400 milljónir króna í fyrra. Það stóð líka til að rífa Höfða áður en borgin eignaðist hann. Hvað ætli fengist fyrir það hús í dag?“
Framtíð Laugavegarins er í brennidepli í Morgunblaðinu á morgun, sunnudag, og þar segir Ívar Örn Guðmundsson arkitekt þetta hjarta Reykjavíkur mega muna sinn fífil fegri. „Menn verða því að taka til hendinni. Að mínu mati er lykilatriði að taka tillit til hugmynda borgarbúa um nýtingu og upplifun í miðbænum. Helstu útgangspunktar ættu að vera að skapa vettvang mannlífs, nýja vídd í verslun í miðborginni, halda rýmismyndun og stærðargráðu göturýmanna og byggja í sátt við þá götumynd sem fyrir er,“ segir Ívar Örn.