„Lögin eru svo illa samin að ég tel að yfirvöld hafi engin úrræði til að framfylgja þessu reykingabanni. Að mínu viti geta yfirvöld ekki gert neitt,“ segir Ragnar Ólafur Magnússon, einn eigenda skemmti- og veitingastaðarins Barsins við Laugaveg 22. Þar hefur verið innréttað reykherbergi, sem brýtur í bága við gildandi lög um tóbaksvarnir.
"Við opnuðum herbergið í byrjun nóvember og síðan þá hafa lögregla, slökkvilið og nokkrir heilbrigðisfulltrúar heimsótt okkur margsinnis og beðið okkur um að loka herberginu. Þeir hafa meira að segja komið að næturlagi um helgar og hafa verið allt að tíu saman í hóp. Þegar ég hef spurt þá hvað þeir geri ef ég loka ekki, hafa þeir látið farið skömmustulegir í burtu," segir Ragnar.
Hann rekur þrjá skemmtistaði í miðbæ Reykjavíkur og hyggst opna sams konar reykherbergi á þeim öllum innan tíðar. Hann segir fleiri bareigendur í startholunum að gera slíkt hið sama, þeir ætli að bíða aðeins og sjá hvernig málið fer hjá honum. "Ég er búinn að fá bréf og lögfræðingurinn minn er búinn að svara því. Ef yfirvöld koma með nýtt útspil mun ég svara því líka, því ég ætla alla leið með málið fyrir dómstóla ef þess þarf," segir Ragnar Ólafur. "Ég segi að bannið standist ekki lög þannig að sumir megi hafa reykingaherbergi og aðrir ekki og þá vísa ég til reykherbergja á Alþingi og í Leifsstöð.“