Miðað við vestrænar þjóðir er heildarneysla áfengis á Íslandi með minnsta móti, jafnvel þótt veruleg aukning hafi orðið á áfengisneyslu hérlendis á síðustu árum. Þetta kemur fram í grein eftir Bjarna Þjóðleifsson lækni í nýjasta hefti Læknablaðsins.
Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.
Bjarni segir ávinning þjóðarinnar af þessari litlu drykkju vera mikinn. Heilbrigðisvandamál tengd ofneyslu áfengis séu lítil hérlendis miðað við önnur Vesturlönd. Takmarkanir á aðgengi að áfeng, s.s. hátt verð, eigi stóran þátt í þessu.
Ennfremur segir Bjarni í greininni að með tilkomu bjórs hafi drykkjusiðir Íslendinga orðið meinlausari.
Kveðst Bjarni telja að frumvarp sem kveður á um afnám einokunarsölu ríkisins á áfengi, og heilbrigðismálaráðherra hefur lýst stuðningi við, stofni þessum árangri í hættu.