Ölvaður maður var handtekinn í vesturbæ Reykjavíkur í nótt fyrir eignaspjöll. Hafði hann barið bíla og sparkað í þá sem leið lá frá Pósthússtræti vestur á Framnesveg, og valdið skemmdum á alls átta bílum, að sögn lögreglu.
Auk þessa voru gerðar fimm líkamsárásir í miðborginni í nótt, þó allar minniháttar. Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvun, og einn maður kærður fyrir að kasta af sér vatni á almannafæri og brjóta þannig gegn lögreglusamþykkt.