Erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Einn maður grunaður um ölvunar- og lyfjaakstur krækti sportbíl sínum í vegrið við bensínstöð á Vesturlandsvegi og yfirgaf hann bílinn fótgangandi en náðist á hlaupum í grennd við bílaumboð Brimborgar um klukkan 4 í nótt. Íbúi í vesturhluta Kópavogs vaknaði upp við þrusk og fann 3 menn með kúbein inni hjá sér.
Mennirnir lögðu á flótta á silfurlitum bíl en atvikið varð um klukkan 3 í nótt.
Enn er óupplýst innbrot sem framið var í nótt á skyndibitastaðinn Hróa Hött við Hringbraut í Reykjavík.
Brotist var einnig inn í verslanakjarnann Grímsbæ við Bústaðaveg en þar voru veggjakrotarar að verki og skildu þeir eftir merki sitt víða á göngunum í nótt. Veggjakrotarar brutust einnig inn í Breiðagerðisskóla og miklar skemmdir unnar með úðabrúsum en bæði málin eru í rannsókn lögreglu.