Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu á þrítugsaldri í 30 þúsund króna sekt fyrir að slá strætisvagnstjóra í andlitið. Konan var einnig dæmd til að greiða sakarkostnað, tæpar 200 þúsund krónur.
Fram kemur í dómnum, að konan var ósátt við það hvernig strætisvagninum var ekið í Hafnarfirði í janúar á síðasta ári en konan var ökumaður annars bíls. Þegar vagninn var stöðvaður við Fjörð kom konan inn í vagninn, skammaði bílstjórann og sló hann síðan í andlitið þannig að hann marðist á kinn.
Fram kemur í dómnum, að verjandi konunnar hafi haldið því á lofti í ræðu sinni fyrir dóminum að konan, sem væri afar grönn og smávaxin, hefði ekki þá líkamsburði að geta slegið stóran og sterkan mann eins og bílstjórann höggi sem gæti talist fela í sér brot ákvæðum almennra hegningarlaga um líkamsárás. Dómarinn féllst ekki á þessi rök og segir liggja fyrir áverkavottorð sem lýsi afleiðingum höggsins.
Þá byggði verjandi á því að konan hafi slegið til vagnstjórans í neyðarvörn og því eigi atlaga hennar að vera henni refsilaus. Dómarinn segir að gegn andmælum vagnstjórans og framburði vitnis, farþega í vagninum, sé fráleitt að halda því fram að vagnstjórinn hafi haft frumkvæði að árásinni. Óumdeilt sé að konan hafi misst stjórn á skapsmunum sínum sem varð til þess að hún vann verknað þann sem var ákærð fyrir.