Valdir hópar viðskiptavina Skeljungs fá eldsneyti á lægra verði en almennir
viðskiptavinir. Starfsmenn 365 hf. bættust í þann hóp á föstudag þegar þeir fengu tölvupóst um að samningur hefði „verið gerður við Skeljung um góðan afslátt á eldsneyti til starfsmanna."
Afslátturinn sem um ræðir er 10 krónur á hvern lítra í sjálfsafgreiðslu, átta krónur með þjónustu og 10 prósent afsláttur af smurolíum og þvottastöðvum. Skeljungur hefur gert sambærilega samninga við önnur fyrirtæki en ekki fékkst uppgefið hversu mörg þau eru. Fjöldi starfsmanna 365 hefur þegar ákveðið að nýta sér tilboðið.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags Íslenskra Bifreiðareigenda (FÍB), segir fyrirtæki hljóta að halda uppi öðru verði til að geta boðið ákveðnum hópum svona verulegan afslátt.
„Það er auðvitað ekki boðlegt, þegar svona afslættir eru í boði er virkilegt svigrúm innan núverandi álagningar til að lækka á hinn almenna viðskiptavin. Annars erumenn að mismuna sínum viðskiptavinum."
Ari Edwald, forstjóri 365, gerir ekki athugasemdir við að ritstjórnum
fyrirtækisins bjóðist þessi kjör hjá Skeljungi. „Þessu tilboði er ekki
beint til okkar starfsmanna beint heldur til fyrirtækisins í heild. Við
fengum tilboð frá öllum olíufélögunum og gengum að því boði sem gaf mestan afslátt. Það er markmið fyrirtækisins að láta starfsmenn okkar njóta þess með okkur ef við náum almennum afsláttarkjörum á markaði."
Ari segir fráleitt að eigendatengsl fyrirtækjanna tveggja hafi haft áhrif á þau afsláttarkjör á eldsneyti sem starfsmönnum 365 stóð til boða.
Samkvæmt heimildum 24 stunda hefur ritstjórn Fréttablaðsins ákveðið að
afþakka tilboðið.