Lögreglan á Akranesi handtók síðdegis í gær tvo aðila sem að hún grunaði um fíkniefnamisferli. Við húsleit á tveimur stöðum á Akranesi fundust síðan 18 kannabisplöntur á lokastigi framleiðslunnar og tæki og tól til fíkniefnaneyslu.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Akranesi að kannabisplönturnar hafi verið í sérútbúnu herbergi til ræktunar og framleiðslu kannabisefna og að á öðrum staðnum hafi verið búið að innrétta þurrkgeymslu fyrir væntanlegar afurðir.
Þykir lögreglu því ljóst að hefði ekki verið gripið inn í framleiðsluna hefði það verið einungis tímaspursmál hvenær fíkniefnin færu í dreifingu á götum bæjarins.
Laust fyrir miðnætti á gær lauk yfirheyrslum yfir sakborningum og telst málið upplýst. Kannabisplönturnar og áhöldin til neyslu fíkniefna voru haldlögð.