Í gæsluvarðhald vegna gruns um rán

Annar tveggja manna, sem handteknir voru í gær grunaðir um að hafa ætlað að sviðsetja rán í verslun, var í dag úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald vegna gruns um að hann hafi framið fleiri rán, þar á meðal rán í verslun 11-11 á föstudagskvöld. 

Hinn maðurinn var sendur í afplánun í fangelsi en hann var dæmdur fyrir auðgunarbrot, að sögn Ómars Smára Ármannssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns. Mennirnir eru báðir innan við tvítugt.

Lögreglumenn fóru í gær í verslun í Reykjavík til að handtaka starfsmann þar en grunur lék á að hann væri viðriðinn rán í 11-11 við Grensásveg á föstudagskvöld. Lögreglumennirnir höfðu ekki verið lengi inni í versluninni þegar grímuklæddur maður kom inn vopnaður eldhúshnífi.

Lögreglumennirnir handtóku manninn sem reyndist vera vinur starfsmanns verslunarinnar og var starfsmaðurinn því einnig handtekinn.

Við yfirheyrslur kom í ljós að  höfðu undirbúið og skipulagt sviðsetningu á ráni í versluninni í þeim tilgangi að ná peningum, símainneignum og tóbaki en starfsmaðurinn hafði einungis unnið í versluninni í fjóra daga.

Við yfirheyrslu játaði hinn maðurinn að hafa ætlað að ræna verslunina og að starfsmaðurinn hafi undirbúið verknaðinn og látið sig vita þegar láta átti til skarar skríða. Skömmu síðar komu hins vegar lögreglumennirnir á vettvang.

Við húsleit heima hjá starfsmanni verslunarinnar fannst þýfi, sem tengist innbrotum, m.a. í Borgarfirði. Um var að ræða fartölvur og skjávarpa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert