Starfshópur á vegum ríkisstjórnarinnar um byggingu Sundabrautar telur að með vísun til núverandi laga sé skýrt að bjóða þurfi verkið út sé ætlunin að afhenda einkaaðila sérleyfi til slíks verks úr ríkissjóði. Því telur meirihluti nefndarinnar að verði ákveðið að Sundabraut skuli að einhverju eða öllu leyti unnin í einkaframkvæmd eigi að bjóða sérleyfið út og að eðlilegasta aðkoma Faxaflóahafna sf. að verkefninu sé í gegnum slíkt útboð.
Verkefni starfshópsins var að fara yfir og meta hugmyndir Faxaflóahafna sf um að fyrirtækið annist fjármögnun og byggingu Sundabrautar í formi einkaframkvæmdar.
Áhugi Faxaflóahafna beinist fyrst og fremst að því að finna leiðir til að hraða framkvæmdum við Sundabraut, sem er grundvallar framkvæmd vegna flutninga og starfsemi hafna á starfssvæði fyrirtækisins, að því er segir í skýrslu starfshópsins.
Fulltrúi fyrirtækisins í starfshópnum telur að ef vilji sé til þess hjá stjórnvöldum, megi með sérstökum lögum gera beina samninga um að Faxaflóahafnir sf annist verkefnið á svipaðan hátt og Spölur gerði varðandi Hvalfjarðargöng. Telji stjórnvöld hins vegar að málinu sé betur fyrir komið á annan hátt fellur það hins vegar fullkomlega að hagsmunum Faxaflóahafna sf, svo framarlega sem verkið komist sem fyrst til framkvæmda, samkvæmt skýrslunni.
Segja frekari tafir á lagningu Sundabrautar óviðunandi
Á fundi stjórnar Faxaflóahafna í dag var til umræðu skýrsla starfshópsins um Sundabraut. Samþykkt var einróma eftirfarandi ályktun stjórnar vegna málsins:
„Stjórn Faxaflóahafna sf. ítrekar fyrri ályktanir um mikilvægi Sundabrautar og nauðsyn þess að verkefnið komist sem allra fyrst á framkvæmdastig. Stjórn Faxaflóahafna sf. skorar á samgönguráðherra og Alþingi að setja verkefnið í forgang og tryggja með markvissum aðgerðum greiðan framgang þess þannig að framkvæmdir við Sundabraut hefjist sem allra fyrst. Ályktanir samtaka og sveitarstjórna á Vesturlandi og borgarstjórnar Reykjavíkur eru samhljóma og á þann veg að frekari tafir á lagningu Sundabrautar séu óásættanlegar.
Skýrsla starfshópsins ber með sér það álit fulltrúa ríkisins að ekki geti orðið af því að semja án útboðs við Faxaflóahafnir sf. um aðkomu og umsjón með verkefninu. Fulltrúi Faxaflóahafna sf. í starfshópnum er ekki sammála þeirri niðurstöðu fulltrúa ríkisins m.a. með vísan til samsvarandi verkefna í Noregi. Stjórn Faxaflóahafna sf. lýsir sig enn sem fyrr reiðubúna að koma að þessu verkefni ef það má verða til þess að hraða framkvæmdum og tryggja framgang þess," segir í ályktun stjórnar Faxaflóahafna.